Pétur Jóhann er Móralskur leiðtogi og rödd Aktu Taktu

Það vakti mikla athygli þegar Gleðipinnar tilkynntu um ráðningu Móralsks leiðtoga en Pétur Jóhann Sigfússon hefur gegnt því starfi undanfarið ár. Hlutverk hans er að halda uppi góðum móral meðal starfsfólks Gleðipinna með því að heimsækja starfsfólk allra veitingastaða fyrirtækisins og spjalla við það yfir kaffibolla. Það var Pétur sjálfur sem viðraði hugmyndina að þessu nýstefnulega stöðugildi, sem líklega er fyrsta sinnar tegundar hér á landi, við Jóa, markaðsstjóra Gleðipinna. „Fyrir mörgum árum síðan plantaðist ákveðið fræ þegar ég var að vinna í Byko. Þá sagði yfirmaður minn hálfreiður við mig þegar ég var búinn að gera eitthvað af mér: „Veistu Pétur, ég væri fyrir löngu búinn að reka þig ef þú værir ekki svona góður fyrir móralinn!“

Frábær hugmynd sem starfsfólkið elskar

„Þetta hefur gengið vonum framar. Pétur hefur sett sig inn í stefnu og markmið okkar Gleðipinna, og miðlar til starfsmanna. Hann er eins og seigfljótandi sýróp sem flýtur um staðina og bindur þessar mörgu rekstrareiningar saman sem eina heild", segir Jói. „Við viljum að Gleðipinnar sé eftirsóknarverður vinnustaður sem fólk er stolt af því að vinna hjá. Einn angi af því sem Móralski er að fara að gera er að taka stöðuna á fólkinu. Sjá hvernig því líður og spjalla við það um hitt og þetta. Hann getur svo miðlað skilaboðum um fyrirtækið frá okkur stjórnendum til starfsfólksins niður alla línuna og komið til baka með mikilvæg skilaboð frá starfsfólki inn á skrifstofu.“

Pétur Jóhann rödd Aktu Taktu

Samstarf Gleðipinna og Péturs Jóhanns heldur áfram að vaxa og nýverið tók Pétur Jóhann að sér að vera rödd Aktu Taktu staðanna sem reka vinsæla lúgu-veitingastaði á fjórum stöðum á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Auglýsingarnar sem farnar eru að hljóma á öldum ljósvakans í útvarpi eru í anda Péturs, hressar og skemmtilegar.