Nýr vegan matseðill á Saffran

Júlía Sif Veganista og Jói
Júlía Sif Veganista og Jói

Gleðipinnar hafa verið í mikilli sókn undanfarið með veitingastaðinn Saffran. Eigendur hafa farið yfir matseðilinn með það að markmiði að hámarka hráefnagæði og blása nýjum glæðum í ástarsamband viðskiptavina sinna við staðinn, segir Jóhannes Ásbjörnsson, talsmaður Gleðipinna. „Þetta höfum við gert í samstarfi við þá meistarakokka, Hinrik Lárusson og Viktor Örn Andrésson. Við höfum bæði tekið inn eldri uppáhaldsrétti sem hafa verið í fríi og viðskiptavinir hafa kallað eftir, eins og humarbökuna, og eins kynnt til sögunnar nýja rétti sem hafa slegið í gegn, líkt og Kimchi salatið og hvítbarbíkjúvefjuna.“

Hluti af þessari vegferð fyrirtækisins var að útfæra virkilega metnaðarfullan vegan matseðil sem er nú að verða að veruleika með fremstu veganfrömuðum okkar Íslendinga, Veganistunum Júlíu Sif og Helga Maríu. „Við ákváðum strax að leita til Júlíu Sifjar og Helgu Maríu en við höfum starfað með þeim áður á Hamborgarafabrikkunni með frábærum árangri og eru þær einfaldlega fremstar í vegan eldamennsku hérlendis að okkar mati.“

Samstarfið fór þannig fram að þær kynntu sér vandlega matseðil Saffran og fengu frjálsar hendur með að koma með tillögur að réttum sem væru í anda Saffran en fullkomlega vegan, segir Júlía Sif. „Markmiðið var að vegan fólk gæti komið og fengið sambærilega Saffran upplifun, nema bara vegan. Þannig vildum við að bragðheimurinn héldi sér að langmestu leyti.“

Gómsætir vegan réttir

Til að byrja með býður Saffran upp á fjóra vegan rétti segir Júlía Sif. „Umræddir réttir eru Satay vegan, sem er tandoori kryddað Oumph með satay sósu, salthnetum, kóríender Vaxa salati, hrísgrjónum og grilluðum rauðlauk. Réttur sem er eins konar vegan útgáfa af Saffran kjúklingnum. Vegan bakan er virkilega spennandi baka með pitsusósu, vegan osti, sveppum, rauðlauki, döðlum, klettasalati og piri piri majónesi.“ Vegan Kimchi salatið er svo vegan útgáfa af einum vinsælasta rétti Saffran í dag, Kimchi salatinu. „Þar er að finna tandoori kryddað Oumph, Vaxa salat, kirsuberjatómata, granatepli, sýrðan lauk, sólblómafræ, mangó, wasabi baunir, Kimchi mæjó, vorlauk og kóríander. Sannarlega veisla fyrir bragðlaukana.“ Að lokum má nefna Vegan vefjuna sem inniheldur tandoori Oumph, hrísgrjón, grænmeti og piri piri majónes.

Spennandi vegan eftirréttur

Til viðbótar við þessa rétti er á leiðinni magnaður vegan eftirréttur bætir Jóhannes við. „Við teljum að hann muni slá í gegn hjá viðskiptavinum okkar. Júlía Sif og Helga María kunna nefnilega að búa til eftirrétti sem slá non-vegan eftirréttum ekkert við.“

Jóhannes er afar spenntur að kynna þessar nýjungar fyrir viðskiptavinum Saffran. „Við höfum fundið fyrir miklum meðbyr undanfarin misseri og við teljum að þetta hafi verið það sem vantaði á matseðilinn hjá okkur, alvöru og virkilega gómsæta vegan rétti.“

Vegan réttirnir eru komnir á matseðil Saffran í Glæsibæ og á Dalvegi en staðirnir tveir bjóða upp á nákvæmlega sama matseðil. „Við minnum líka á Saffran vefinn okkar og appið, þar sem hægt er að skoða matseðilinn og panta.“

Nánari upplýsingar á saffran.is.