Laddinn - hamborgari allra landsmanna

Laddinn - hamborgari allra landsmanna

  • Hamborgarafabrikkan kynnir heiðursborgara Ladda
  • Hamborgarauppskriftin eftir Ladda og sósuuppskriftin eftir frú Ladda
  • Laddi elskar súrar gúrkur og kartöflusalat
  • Eiríkur Fjalar, Magnús bóndi, Hallgrímur hvítlaukskokkur og Jarmundur búfræðingur smökkuðu borgarann og voru ekki sáttir
Laddinn - heiðursborgari Ladda
“Laddi er þjóðareign. Við eigum Ladda og Laddi á okkur. Goðsögn, grínari, gleðigjafi og gullbarki. Við erum himinlifandi yfir þessu samstarfi og þakklát fyrir Ladda sem hefur gefið okkur svo ótrúlega mikið”, segir Jóhannes Ásbjörnsson, einn eigenda Hamborgarafabrikkunnar, sem kynnir nú til sögunnar heiðursborgara Þórhalls Sigurðssonar, Ladda. Hamborgarauppskriftin kemur frá Ladda sjálfum og uppskriftin að sósunni frá frú Ladda, Sigríði Rut Thorarensen. “Þetta er afar einfaldur hamborgari í raun. En ofsalega bragðgóður. Í mínum huga þarf góður hamborgari að hafa nóg af beikoni og bræddum osti og svona ekta gamaldags hamborgarasósu. Sigga Rut hefur alltaf séð um sósuna”, segir Laddi.
 
Elskar súrar gúrkur og kartöflusalat
Þó að hamborgarinn sé einfaldur þá setti Laddi þó tvö skilyrði fyrir samstarfinu. “Ég elska súrar gúrkur. Ég kaupi þær alltaf í Ikea og borða þær með flestu. Fer í gegnum heila krukku á viku”, segir Laddi sem fékk að sjálfsögðu ósk sína uppfyllta, og er Laddinn borinn fram með vænum skammti af súrum gúrkum. Seinna skilyrðið var að hann yrði borinn fram með kartöflusalati, en ekki frönskum kartöflum. “Okkur fannst það frábær hugmynd. Við höfum aldrei verið með kartöflusalat á Fabrikkunni og fengum Eyþór Rúnarsson, meistarakokk til þess að setja saman besta kartöflusalat í heimi.” segir Jóhannes.
 
“Vinir Ladda” smökkuðu hamborgarann
Þegar vinir Ladda heyrðu af þessu samstarfi vildu nokkrir þeirra ólmir fá að taka hamborgarann út. Þeir Eiríkur Fjalar, Magnús bóndi, Hallgrímur hvítlaukskokkur og Jarmundur búfræðingur mættu á Fabrikkuna en viðbrögðin voru misjöfn. “Þeir voru ekkert að fíla hann alltof vel. Ég bjóst svosem alveg við því, þeir eru allir mjög sérstakir og hafa miklar sérþarfir þegar kemur að mat”, segir Laddi. Myndavélarnar voru á lofti þegar þessir góðu menn mættu í smakk og má sjá afraksturinn með því að smella á hlekkinn hér að neðan, sjón er sögu ríkari.