Gleðipinnar styðja SOS Barnaþorpin - 18 staðir og 18 styrktarbörn

Jói, Gunna í Skipholti og Rúrik Gísla
Jói, Gunna í Skipholti og Rúrik Gísla

400 starfsmenn af um 20 þjóðernum

„Gleðipinnafjölskyldan okkar er stór og fjölbreytt, hjá okkur starfa um 400 starfsmenn af um 20 þjóðernum. Það er því afar viðeigandi að taka þátt í starfi SOS Barnaþorpanna með þessum hætti, enda starfa þau í 137 löndum víðs vegar um heiminn. Það er táknrænt að Gunna á Stælnum taki á móti fyrsta styrktarbarninu, en hún er elsti starfsmaður Gleðipinna, hefur stýrt American Style í Skipholti í 25 ár og alið upp fjöldann allan af íslenskum fyrirmyndarbörnum," segir Jóhannes Ásbjörnsson, talsmaður Gleðipinna. Jóhannes fór einmitt nýverið ásamt Rúrik Gíslasyni mági sínum til Afríku að kynna sér starf SOS Barnaþorpanna og heimsóttu þeir styrktarbörn sín í Malaví. Afraksturinn má sjá í þættinum Rúrik og Jói í Malaví á Sjónvarpi Símans.

Muni veita starfsfólki mikla ánægju

SOS mömmur hafa í 73 ár verið máttarstólpinn í starfsemi SOS barnaþorpanna og að afhenda Gunnu á Stælnum fyrstu upplýsingamöppuna var sérstaklega ánægjulegt svona nálægt mæðradeginum. Þessi stuðningur Gleðipinna mun ekki aðeins hafa jákvæð áhrif á líf þessarra 18 barna heldur einnig keðjuverkandi áhrif á komandi kynslóðir, það er, afkomendur þeirra til framtíðar. Við erum sannfærð um að það muni veita starfsfólki Gleðipinna mikla ánægju að fylgjast með uppvexti styrktarbarna sinna um ókomin ár,” segir Hans Steinar Bjarnason, upplýsingafulltrúi SOS Barnaþorpanna á Íslandi.

 

Á tíunda þúsund SOS-foreldrar á Íslandi

Með þessum stuðningi komast Gleðipinnar í hóp svokallaðra Velgjörðafyrirtækja SOS og vilja þannig hvetja viðskiptavini sína sem og starfsmenn til þess að gerast SOS-foreldrar en það er gert með afar einföldum hætti á sos.is. Á tíunda þúsund Íslendinga eru SOS-foreldrar sem framfleyta barni í SOS barnaþorpi með mánaðarlegu framlagi og fylgjast með uppvexti barnsins í gegnum bréf og myndir.

SOS Barnaþorpin eru stærstu óháðu hjálparsamtök heims sem einblína á börn án foreldraumsjár og ósjálfbjarga barnafjölskyldur.