Gleðipinnar hljóta jafnlaunavottun!

Gleðipinnafjölskyldan telur um 400 starfsmenn af nærri 20 þjóðernum. Við trúum því að til þess að fyrirtæki geti blómstrað þá þurfi starfsfólkið að blómstra. Ef eigendum og stjórnendum fyrirtækja þykir ekki vænt um starfsfólkið þá þykir starfsfólkinu ekki vænt um fyrirtækið og viðskiptavinina. Þetta byrjar því allt og endar á okkur sjálfum. Gleðipinnar leggja höfuðáherslu á að skapa gott umhverfi fyrir starfsfólk þar sem samheldni, vinskapur og kraftmikið félagslíf eru í fyrirrúmi.

Við teljum jöfnuð vera lykilatriði í gagnsæju og réttlátu launakerfi og eitt af mörgum skrefum til að gera góðan vinnustað enn betri. Nú hafa Gleðipinnar hlotið jafnlaunavottun samkvæmt jafnlaunastaðlinum ÍST 85:2012. Með innleiðingu jafnalaunakerfis samkvæmt jafnlaunastaðli er tryggt að málsmeðferð og ákvarðanir í launamálum séu rekjanlegar, byggi á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun. Vottunin er í gildi frá 2022 til 2025.

Við hjá Gleðipinnum erum stolt af því að hafa hlotið jafnlaunavottun og að vera handhafar merkisins. Það er hluti af vegferðinni okkar og talar við markmiðin okkar sem eru skýr og einföld:  

  • Að eiga vel rekna veitinga- og afþreyingarstaði sem njóta stöðugra vinsælda hjá Íslendingum.
  • Að Gleðipinnar séu góður og eftirsóttur vinnustaður.
  • Að Gleðipinnar og vörumerki okkar njóti virðingar og trausts í samfélaginu.