Fjórða versta pizza í heimi?

Shake&Pizza, hinn rómaði veit­ingastaður í Keilu­höll­inni í Eg­ils­höll, er þekkt­ur fyr­ir að fara ótroðnar slóðir þegar kem­ur að pítsum og sj­eik­um. „Hug­mynda­fræði Shake&Pizza er að vera sí­fellt að prófa nýj­ar sam­setn­ing­ar, para sam­an álegg sem fáum myndi detta í hug að para sam­an og leyfa okk­ur að hugsa út fyr­ir kass­ann, í þetta skipti tók­um við þessa til­rauna­starf­semi á nýtt plan,” seg­ir Jó­hann­es Ásbjörns­son, einn eig­enda Shake&Pizza.

Það eru orð að sönnu því að nú hef­ur ný þorrapítsa litið dags­ins ljós eft­ir þrot­laus­ar til­raun­ir. Þorrapíts­an er byggð á grunni Beikonsultupítsunn­ar, vin­sæl­ustu pítsunn­ar á Shake&Pizza, sem var jafn­framt val­in fjórða besta pítsa í heimi á Pizza Expo í Las Vegas um árið.

Skipt­ast í tvær fylk­ing­ar

„Mark­miðið var að sjálf­sögðu að búa til ljúf­fenga þorrapítsu en það má eig­in­lega segja að það hafi ekki al­veg tek­ist. Vissu­lega mun ein­hverj­um finn­ast hún ljúf­feng, en hún mun seint njóta al­mennra vin­sælda,” bæt­ir Jó­hann­es við.

Þorrapíts­an er líkt og beikonsultupíts­an með beikonsultu í stað pizzasósu. Álegg­in eru svo þekkt­ir leik­menn úr þorra­heim­in­um, sviðasulta, græn­ar baun­ir, salt­kjöt og laufa­brauð. Her­leg­heit­in eru svo toppuð með hvít­laukssósu.

„Þegar við smökkuðum hana skipt­ist starfs­fólkið okk­ar al­veg í tvær fylk­ing­ar. Sum­ir elskuðu bragðið á meðan aðrir munu ör­ugg­lega ekki smakka hana aft­ur. Þar varð brand­ar­inn til, að þorra­út­gáf­an af fjórðu bestu pizzu í heimi væri hugs­an­lega mögu­lega kannski sú fjórða versta í heimi,” bæt­ir Jó­hann­es hlæj­andi við.

Nú er ekki annað hægt en að hvetja alla pítsu­áhuga­menn að mæta á Shake&Pizza á þorr­an­um og smakka og fella eig­in dóm um afurðina.