ÉG ANN CHiLi PiZZAN Á SHAKE&PIZZA

Ég ann chili pizzan er sett saman af virðingu við chili piparinn

Shake&Pizza í samstarfi við forkólfa Ég ann chili-hópsins hafa sett saman nýja pizzu sem óhætt er að segja að sé einstök í sinni röð hérlendis. Carolina Reaper, grænn Birds-Eye, Thai Chili og Naga Jolokia pipar, hljóma líklega framandi fyrir leikmanninn en um er að ræða heimsfræga gæða-chilipipra sem chili-unnendur um allan heim þekkja.

 

„Hugmyndin var frá upphafi að sýna hráefnum virðingu og nota aðeins það besta. Á sama tíma er ákveðin fagurfræði sem gildir um pizzur. Þær eiga ekki að vera of flóknar, einfaldleikinn á að ráða för”, segir Björn Teitsson, sem ásamt Þórði Gunnarssyni stofnaði aðdáendaklúbb íslenskra chili-unnenda og chili-fíkla árið 2013. Markmiðið var að skapa vettvang fyrir umræður og ástaryfirlýsingar á hinum ýmsu afbrigðum chili-pipra. “

 

„Í samstarfinu við Shake&Pizza vildum við ná fram hinu klassíska sterkt-sætt “one-two-punch” sem virkar mjög vel með chili. Það var á algjörum bannlista að svindla með nokkrum hætti, engin rótsterk sósa blönduð í pizzasósuna eða þvíumlíkt. Hér er eingöngu um alvöru, fersk hágæðahráefni að ræða”, bætir Björn við.

 

„Sífellt fleiri eru að öðlast smekk fyrir sterkum mat á Íslandi og margir veitingastaðir með slíkt á sínum matseðlum. Fyrir okkur var mikilvægt að pizzan væri ekki bara sterk heldur líka gómsæt. Sterkur matur á ekki bara að búa til gufustrók út úr eyrunum, heldur er betra að nýta sterka bragðið til að upphefja réttinn og opna bragðlaukana,“ segir Þórður.

 

Ég ann chili pizzan og chili-samfélagið styðja Krabbameinsfélagið

Björn Teitsson, annar stofnenda Ég ann chili hópsins, starfar fyrir Krabbameinsfélagið og upp kom sú hugmynd að nýta nýju pizzuna til góðra verka. „Það hefur lengi verið talið að neysla chilipipars geti haft ákveðið forvarnargildi gegn krabbameinum þó að vissulega sé allt best í hófi. Við viljum því vekja athygli á þessum galdraáhrifum chilipiparsins með því að styrkja Krabbameinsfélagið”, segir Björn. Allt söluandvirði Ég ann chili pizzunnar fyrstu 10 dagana mun því renna óskert til Krabbameinsfélagsins.

 

Chili er ávanabindandi, það vita þau sem vita

Ég ann chili pizzan er fullkomin leið fyrir áhugasama til þess að kynnast töfrum alvöru chilipipars. Jói, einn af eigendum Shake&Pizza reyndi það á eigin skinni við smökkun á nýju pizzunni. „Það sem ég komst að var að ég vissi nákvæmlega ekki neitt um chilipipar. Mín hugmynd var sú að sterkur chilipipar væri einhverskonar macho pæling þar sem menn væru að kvelja sjálfan sig með karlmennskustælum eða kappátstilburðum. En chilipipar er bara allt annað en það. Hann snýst um fegurð og upplifun og gott bragð”, segir Jói.

Ég ann chili pizzan inniheldur mörg mismunandi lög af hita, til þess að fá allt litrófið sem í boði er. Birdseye-chili býr til bruna sem birtist strax á tungunni á meðan Carolina Reaper er ávaxtaríkur á bragðið til að byrja með en hitinn eykst stöðugt, svokallaður slow burner. Szechuan-piparinn skapar ekki hita sem slíkur en býr til doða í munninum ásamt ákveðnu villtu og náttúrulegu reykbragði sem er alveg einstakt. Naga Jolokia olían er búin til úr þurrkuðum piprum sem færa pizzunni aukna dýpt og aukinn hita og virkar í raun sem margföldunarvél á þann hita sem fersku piprarnir hafa þá þegar myndað.

 

„Chili er ávanabinandi. Hann er endorfín- og adrenalínlosandi og skapar jafnvel hugbreytandi áhrif og mikla andlega vellíðan. Bruninn venst og skapar hugrenningatengsl við þessa vellíðan. Ég ann chili pizzan er fyrir lengra komna – en allir ættu að prófa. Hún er fyrir allt fólk sem elskar sterkan mat, fyrir allt fólk sem ber virðingu fyrir sterkum mat og elskar fersk og góð hráefni. Hún er bragðgóð, hún er endorfínsprengja og hún er til þess að njóta. Verði ykkur að góðu og til hamingju íslenskt chili-samfélag”, bætir Björn við að lokum.